„Framkvæmdir ganga ljómandi vel og koma fyrstu gestir 15. júlí. Það er allt að verða klárt,” segir Unnar Bergþórsson...
„Framkvæmdir ganga ljómandi vel og koma fyrstu gestir 15. júlí. Það er allt að verða klárt,” segir Unnar Bergþórsson, hótelstjóri á Hótel Húsafells.
Um sextíu til sjötíu manns hafa starfað við uppbygginguna í Húsafelli seinustu vikur, þegar mest hefur verið, en nú sér fyrir endann á þeirri vinnu. Er stefnt að því að hótelið, sem er fjögurra stjarna, verði formlega opnað miðvikudaginn 15. júlí. Hafa framkvæmdir staðið yfir frá því seinasta sumar.
Unnar segir í samtali við mbl.is að bókanir hafi gengið framar vonum, allt frá opnun. Jafnframt sé búið að bóka gesti langt fram á veturinn. „Og bókanir hafa einnig farið afar vel af stað fyrir næsta ár,“ segir hann.
Hann nefnir auk þess að greinilega sé mikill áhugi á svæðinu, Húsafelli, sem og uppsveitum Borgarfjarðar á meðal erlendra ferðamanna.
Nýja hótelið er fellt inn í landslag og skóg í hjarta Húsafells, á milli þjónustumiðstöðvar og sundlaugar. Það er hannað sem miðstöð útivistar og náttúruskoðunar í uppsveitum Borgarfjarðar og er tekið tillit til þarfa göngufólks og annars áhugafólks um náttúruna.
Þar verður meðal annars hundrað manna veitingastaður á efri hæð. Á þeirri neðri verða fjölnota salir og aðstaða fyrir útivistarfólk, til dæmis þurrkaðstaða, geymslur fyrir gönguskó og annan búnað. Þar er útgangur að sundlauginni. Út frá þessari miðju eru gistiálmur með alls 36 rúmgóðum gistiherbergjum. Unnar segir að möguleiki sé á því að bæta við tólf herbergjum.
mbl.is