Félagið Húsafell Resort ehf. hyggst opna 36 herbergja hótel með sex svítum á Húsafelli næsta sumar.
Félagið Húsafell Resort ehf. hyggst opna 36 herbergja hótel með sex svítum á Húsafelli næsta sumar.
Framkvæmdir eru hafnar við byggingu á 36 herbergja hóteli á Húsafelli. Dótturfélag Ferðaþjónustunnar á Húsafelli, Húsafell Resort ehf. stendur að verkefninu en félagið er í eigu hjónanna Bergþórs Kristleifssonar og Hrefnu Sigmarsdóttur. Stefnt er að því að hótelið opni í júní á næsta ári en það verður byggt á lóð sem er á milli sundlaugarinnar á Húsafelli og þjónustumiðstöðvarinnar.
Áætlaður kostnaður við byggingu hótelsins eru 460 milljónir króna og er verkefnið fjármagnað í samstarfi við Landsbankann. Hótelið, sem verður þrjár til fjórar stjörnur, verður á tveimur hæðum og er grunnflöturinn 1.800 fermetrar. Af 36 herbergjum verða sex svítur.
Þórður Kristleifsson, bróðir Bergþórs, er verkefnastjóri. Hann segir að það vanti tilfinnanlega hótel á Vesturlandi og ekki síst gott heilsárshótel.
„Hugmyndin er 30 ára gömul en þá ætlaði Kristleifur faðir minn að byggja hér 20 húsa þyrpingu en það gekk ekki eftir," segir Þórður. „Þessi hugmyndi blundað lengi í okkur hér og fyrir rúmu ári fórum við á fullt í að skoða möguleikana á byggingu hótels. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að byggja þetta hótel."
Á hótelinu verður gestamóttaka, bar og veitingastaður með útsýni yfir Húsafell og til fjalla. Á neðri hæð verður sér inngangur sem tengist með aðkomutorgi við sundlaug, golfvöll og þjónustumiðstöð.