Húsafell

Húsafell Bistró: 435-1550

restaurant@hotelhusafell.is
Hótel Húsafell: 435-1551

booking@hotelhusafell.is

Sundl./swimming pool:

435-1552

Tjaldsvæði/camping:

435-1556

camping@husafell.is

 

Bergþór Kristleifsson

husafell@husafell.is


 

 Saga Húsafells

Samantekt 

Saga Húsafells er löng og oft með þjóðsagnablæ. Elstu heimildir um búsetu á Húsafelli eru í Laxdæla sögu frá því um 1170, en þar er getið um Brand Þórarinsson. Einna frægastur ábúenda að Húsafelli er eflaust Snorri Björnsson (prestur) , en hann bjó þar á árunum 1756-1803. Um hann hafa verið ritaðar bækur og ótal frásagnir eru til af honum og sumar hverjar með miklum þjóðsagnarblæ. Frægar eru kvíarnar sem Snorri hlóð og aflraunasteinninn sem kallaður er Kvíahellan. Bærinn var lengi í alfaraleið milli Norður- og Suðurlands. Var því oft mikil gestanauð eins og kallað var, því að bændum var skylt að veita ferðamönnum beina. Framan af þessari öld hægðist þó um, en árið 1930 var vegurinn yfir Kaldadal lagður og jókst þá umferð, því aðalvegurinn til Norðurlands lá þá um Húsafell í nokkur ár. Kirkjan var upphaflega reist á Húsafelli um 1170 en hún var aflögð árið 1812. Núverandi kirkja var byggð eftir hugmynd Ásgríms Jónssonar listmálara á árunum 1950-1973.

Samantekt á sögu Húsafells á þessari vefsíðu er unnin úr bókinni Húsafell leiðsögn fyrir ferðamenn útgefin af Ferðaþjónustunni Húsafelli árið 1991 sem Gylfi Ásmundsson tók saman.

 

Ábúendur og prestar
Fyrstu heimildir um Húsafell eru í Eyrbyggju, þar sem þess er getið að Brandur Þórarinsson  setti stað á Húsafelli, sem merkti að kirkjan var færð undir umsjón biskupsstólsins og tekjur hennar og eignir tíundaðar í máldaga.  Þetta mun hafa verið um 1170.  Bændakirkja kann að hafa verið þar áður. Um  upphaf Húsafells og hverjir þar bjuggu fyrir þann tíma vitum við ekkert.  Reyðarfell er talin vera eldri jörð og mun hafa verið landnámsjörðin og Húsafell byggt úr landi hennar.  Freistandi er að geta sér þess til að Bæjarfellið hafi upphaflega heitað Húsafell, og þar sem bærinn stendur nú hafi verið beitarhús frá Reyðarfelli.  Þar hafi síðan risið höfuðbólið, en Reyðarfell smám saman orðið hjáleigan, einkum vegna þess að landgæði voru þar mun minni en á Húsafelli. Reyðarfell leggst síðan í eyði um 1500 og fellur jörðin undir Húsafell. 

 

Fyrir 1170           
Brandur Þórarinsson, hann var sonur Þórarins Brandssonar og Guðrúnar Óspaksdóttur Bollasonar hins prúða Bollasonar.

Eftir 1170            
Sighvatur Brandsson prestur, sonur ofangreinds . Hann var fyrsti prestur á Húsafelli sem getið er um og sat lengi.

Fyrir 1252           
Sigmundur prestur. Í Þorgils sögu skarða segir frá því að Þorgils kemur að Húsafelli með mönnum sínum og biður Sigmund prest að útvega fylgd um Tvídægru.

1394                     
Ólafur prestur.

Fyrir 1472           
Séra Valgarður Ívarsson sat tvisvar á Húsafelli.  Hann var sonur Ívars Vigfússonar Hólm yngra hirðstjóra.

1499-e.1530      
Séra Snorri Þorgilsson, Getið í máldaga kirkjunnar árið 1504.

1552-1568          
Séra Loftur Þorkelsson, d.1568. Faðir hans var Þorkell Björgúlfsson, Þorkelssonar vellings.  Loftur varð prestur 1538 og er kominn að Húsafelli fyrir 1552 og hélt til æviloka.  Hann þjónaði  einnig Reykholtskirkju meðan Oddur lögmaður Gottskálksson hélt Reykholt.  Frá honum eru komnar miklar ættir.

Séra Eiríkur Grímsson, f. Um 1512, d. 1597, var prestur á Gilsbakka frá því um 1550 en gegndi prestþjónustu um tveggja ára skeið á Húsafelli einnig.  Hann var sonur Gríms bónda í Auðsholti í Biskupstungum og meðal bræðra hans voru séra Freysteinn í Stafholti og séra Eyjólfur á Melum.

1590-1598          
Séra Salomon Guðmundsson, f. Um 1529, d. 1598.  Foreldrar hans voru Guðmundur Salomonsson að Laxfossi og kona hans Agnes Brandsdóttir.  Hann ólst upp hjá séra Freysteini Grímssyni í Stafholti.  Er orðinn prestur 1548, talinn hafa fengið Hvamm í Norðurárdal 1559, varð 1590 að standa þar upp fyrir séra Einari skáldi Sigurðssyni, föður Odds biskups, tók þá samtímis Húsafell og hélt til æviloka.

 

1598-1600          
Séra Jón Þorsteinsson, f. Um 1570 og veginn 18. Júlí 1627 í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum.   Foreldrar hans voru Þorsteinn Sighvatsson í Höfn í Melasveit og kona hans Ásta Eiríksdóttir prests í Reykholti Jónssonar.  Hann varð prestur að Húsafelli 1598, en fékk Torfastaði 1601 og Kirkjubæ í Vestmannaeyjum um 1607 og hélt til æviloka.  Séra Jón var gáfumaður og skáld og sálmar hans lengi í miklum metum.  Kona hans, Margrét Jónsdóttir bónda á Hæli í Flókadal Péturssonar, var hertekin í Tyrkjaráni og kom aldrei aftur til landsins.

1600-1601          
Séra Sigurður Finnsson, d.1646.  Foreldrar hans voru Finnur Steindórsson á Ökrum á Mýrum og kona hans Steinunn Jónsdóttir refs í Búðardal Sigurðssonar.  Hann lærði í Skálholtsskóla, var vígður 1600 og fékk Húsafell sama ár, en fluttist burtu árið eftir.  Hann var lengst prestur í Miklaholti, talinn vel viti borinn og skáldmæltur.  Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir sýslumanns í Einarsnesi Jónssonar og meðal barna þeirra var Finnur skáld á Ökrum

 

1601-1606          
Jón Grímsson bóndi, faðir Gríms prests á Húsafelli er talinn hafa verið bóndi á Húsafelli.  Gæti það hafa verið á árunum 1601-1606 eftir að Jón Þorsteinsson fer frá Húsafelli og áður en Jón Böðvarsson fær staðinn.

Séra Torfi Þorsteinsson, d. 1622, prestur á Gilsbakka gegndi prestverkum á Húsafelli árin 1602-1605 og árin 1615-1617.

 

1606-1610          
Séra Jón Böðvarsson eldri.  Foreldrar hans voru séra Böðvar Jónsson í Reykholti og fyrsta kona hans Ásta Pantaleonsdóttir, prests á Stað í Grunnavík.  Hann fær Húsafell 1606, missir prestskap 1610 fyrir frillulífsbrot, hefur fengið uppreisn bráðlega og er talinn hafa fengið Nesþing 1615 og haldið til 1631 og dáið ári síðar.  Hann var talinn vel að sér en óráðsettur og auðnulítill.

 

1615-1654          
Grímur Jónsson vígðist að Húsafelli 1615.  Hann var sonur Jóns Grímssonar, er um eitt skeið hélt Húsafell að léni og bjó í Norðtungu, Síðumúla og Kalmanstungu.  Kona séra Gríms var Engilráð Jónsdóttir frá Breiðabólstað.  Meðal sona þeirra hjóna var séra Helgi, sem gjörðist prestur eftir föður sinn að Húsafelli eftir dauða föður síns.  Séra Grímur var þjónandi prestur að Húsafelli í þrjátíu og níu ár.  Hann dó þar 1654.  Þar á Húsafelli dó líka Engilráð, kona séra Gríms.  Voru þau grafin þar fram undan kirkjudyrum og eru yfir þeim legsteinar, sem höggnir eru úr rauðu grjóti, sem tekið hefur verið þar úr hinu mikla gljúfragili, sem er fyrir ofan bæinn.  Eru það elstu legsteinar, sem þekkjast nú úr því efni.  Er steinninn yfir séra Grími ennþá heill og óskemmdur og getur hann talist til forngripa.

1654-1691          
Séra Helgi Grímsson var fæddur 1622.  Hann vígðist 1652 aðstoðarprestur föður síns.  Kona séra Helga var Guðríður Stefánsdóttir, prests á Nesi við Seltjörn, Hallkelssonar.  Um manngildi og atgjörvi þessara feðga eru nú allar sagnir gleymdar, nema ef eitthvað væru um þá skráð, sem vel má vera, þótt ég viti ekki um það.  Það eitt verður nú lesið út úr æviferli þeirra, að þeir hafa bundnir tryggð við Húsafell og unað þar svo hag sínum, að þar hafa þeir kosið að lifa og deyja.  Þess er getið í formála að Landnámu, að Helgi prestur hafi ritað af henni eitt handrit með settletri.  Bendir það í þá átt, að hann hafi verið hneigður til fræðiiðkana.  Í sömu átt bendir það einnig, er hann fór ásamt Birni mági sínum, Stefánssyni, að leita Þórisdals í Langjökli.  Séra Helgi Grímsson dó á Húsafelli 2. Ágúst 1691, sextíu og níu ára að aldri.                           
Séra Eiríkur Vigfússon, f.  Um 1624, d. 29. Ágúst 1692, var þjónandi prestur á Húsafelli um eins árs skeið 1691-1692.  Hann bjó á eignarjörð sinni Stóra-Ási og sótti um Húsafell að Helga Grímssyni látnum, en andaðist áður en prestakallið væri veitt.

 

1692-1696          
Séra Gunnar Pálsson (f. Um 1667, d. 1707) fékk Húsafell eftir lát séra Helga Grímssonar.  Hann var sonur séra Páls Gunnarssonar eldra, prófasts á Gilsbakka.  Hann var aðstoðarprestur föður síns á Gilsbakka eitt eða tvö ár, en fékk veitingu fyrir Húsafelli 1692.  Tók hann við því brauði ári síðar.  En 1696 tók hann Stafholt eftir lát séra Páls Gunnarssonar yngra, föðurbróður síns.

1696-1736          
Halldór Árnason, Eiríkssonar prests Ketilssonar, fæddur 1672, vígðist að Húsafelli 1696.  Kona hans var Halldóra Illugadóttir, prests Jónssonar.  Allt bendir til þess, að séra Halldór hafi verið athafnamikill búsýslumaður, ættrækinn og drenglyndur.  Eftir fárra ára búskap er hann búinn að komi fyrir sig stórbúi, eftir því sem þá gjörðist.  Þá hefur hann líka tekið tvo bræður sína á barnsaldri til fósturs.  Þrjá syni sína kostar hann í skóla.  Allir urðu þeir síðar nafnkenndir embættismenn.  Elstur sona séra Halldórs var Bjarni sýslumaður á Þingeyrum, sem varð einn meðal nafkenndustu höfðingja 18. aldar hér á landi, en eins og gengur ekki ætíð lofaður af samtíð sinni.  Annar sonur séra Halldórs var Illugi prestur á Borg, og hinn þriðji Sigvaldi prestur á Húsafelli.  Séra Halldór hefur án efa verið kynsælastur allra Húsafellspresta.  Til hans geta fjöldamargir núlifandi merkismenn rakið ættir sínar.  Hafa synir hans allir verið mjög kynsælir.  Albróðir séra Halldórs á Húsafelli var Þórarinn Árnason lögréttumaður, bóndi á Eyri í Svínadal.  Séra Halldór dó á Húsafelli 1736 og hafði þá verið þjónandi prestur þar fjörutíu ár.

1736-1756          
Séra Sigvaldi Halldórsson, f. Um 1706, fékk Húsafell að föður sínum látnum, en hafði þá verið aðstoðarprestur hans fimm ár (vígður 1731) og búið þá í Stóra-Ási, var tuttugu ár sóknarpestur á Húsafelli og andaðist þar 1756.  Kona hans var Helga Torfadóttir, prests Halldórssonar í Reykholti.  Séra Torfi var bróðir hins mikla fræðimanns, séra Jóns Halldórssonar í Hítardal, föður Finns biskups, og af hinni merku og kynsælu Reykhyltingaætt.  Þau hjón, séra Sigvaldi Halldórsson og Helga Torfadóttir, áttu nokkur börn, þar á meðal tvo syni, sem báðir náðu fullorðinsaldri.  Hétu þeir Torfi og Þórarinn.  Voru þeir báðir skólalærðir, en létust á unga aldri.  Engar ættir eru frá þeim komnar og ekki öðrum börnum þeirra en Sigríði, sem var kona séra Snæbjarnar í Grímstungu, Halldórssonar biskups á Hólum Brynjólfssonar.  Frá þeim eru stórmerkar ættir og óvenju fjölmennar.

 

1756-1803 séra Snorri Björnsson.
Snorri prestur Björnsson fékk veitingu fyrir Húsafelli 1757.  Kom hann frá Stað í Aðalvík og var þá búinn að vera þar þjónandi prestur í sextán ár.  Hann var fæddur í Höfn í Melasveit 3. Okt. 1710.  Þar bjuggu þá foreldrar hans, Björn Þorsteinsson og Guðrún Þorbjarnardóttir. 

 

Frá uppvaxtarárum Snorra eru nú fáar sagnir kunnar.  Hann var snemma hrifinn af hetjum fornaldarinnar og frægðarverkum þeirra.  Æfði hann því ungur margar hinar sömu íþróttir, sem gjörðu fornhetjurnar frægar, svo sem skotfimi, sund, glímur, stökk og handahlaup.  Hann var líka hinn mesti hagleiksmaður á allar smíðar og lagði snemma fyrir sig skipasmíðar. 
Fáir Borgfirðingar voru syndir hér á 18. öld aðrir en þeir Hafnarbræður Björnssynir.  Hafnarskógur liggur inn með Borgarfirði sunnan megin.  Þar voru þeir bræður oft að viðarhöggi og kolagjörð á æskudögum.  Á hlýjum og björtum vormorgnum blasti fjörðurinn við þeim bjartur og spegilsléttur.  Stóðust þá hinir ungu menn eigi freistinguna, köstuðu klæðum og lögðust til sunds í fjörðinn. 
Við sundið dvaldist þeim stundum lengur en þeim þótti gegna góðu hófi.  Reyndu þeir þá að bæta fyrir brot sín og vinna upp tapið með því að hamast við skógarvinnuna, þegar á land kom, voru þá stundum stórhöggir og rifu þá jafnvel hrísið upp með rótum.  Frá þessu sagði Snorri prestur Jakobi syni sínum og hann Þorsteini syni sínum, sem var faðir textahöfundar.  Ég get þessa hér, því til sönnunar, hve lítinn kost unglingar áttu á þeim árum á því að æfa íþróttir í lofi foreldra og því síður vandalausra húsbænda.     Allt snerist þá um það eina að knýja fram vinnuna með látlausu ofurkappi.  En hér sést líka, hve óbilandi viljaþróttur fær miklu áorkað, þar sem Snorri varð á þennan hátt svo fær í sundi, að hann var talinn syndur sem selur.  Bjargaði hann oftar en einu sinni mönnum úr sjávarháska með sundkunnáttu sinni.  Gísli Konráðsson skrifaði mikið um séra Snorra, en flest er það með þjóðsagnablæ og öfgakennt, enda hafa þær sagnir flestar farið margra á milli, áður en þær bárust til eyrna Gísla.  Hafa þær því breytt myndum á ýmsa vegu og blandast slúðri. 


Þegar séra Snorri kom að Húsafelli var hann kvæntur fyrir fáum árum.  Kona hans var Hildur Jónsdóttir prests Einarssonar á Stað í Aðalvík.  Hildur var fjórtán ára, þá er Snorri gjörðist prestur að Stað. Var sagt, að hann hefði fermt hana eftir að hann kom til Aðalvíkur.
– Vel undi Snorri prestur á Húsafelli og tók ástfóstri við þá jörð eins og fyrri prestar.  Ekki var hann búsýslumaður að sama skapi sem hann var hagur og verkmikill, en komst þó sæmilega af efnalega. 

Hafði hann mikla fjölskyldu, þegar fram liðu stundir.  Börn hans sjö náðu fullorðinsaldri, en sum dóu í æsku.     Fyrir þau kynni, sem séra Snorri hafði af Hornstrendingum mynduðust miklar þjóðsögur um það, að hann hefði numið galdra þar vestra.  Ekki munu þær sagnir hafa mikið sannleiksgildi.  Samt hefur hann að líkindum ekki verið trúlaus á hindurvitni, enda átti sú trú marga fylgjendur á 18. öldinni.  Þegar menn voru orðnir fulltrúa um það, að þeir hefðu hóp á hælum sér af ýmsum slæðingi, þá var ekki kyn, þótt þeir flýðu á náðir þeirra manna, sem þeir báru eitthvert traust til að gætu leyst þá frá þeim ófögnuði.  Var þá fáum treyst betur í þeim efnum en Snorra presti á Húsafelli.  Leituðu því á náðir hans hugsjúkir menn sem voru orðnir værðarlausir af ótta við sendingar frá óvinum.  Fengu þeir fulla bót meina sinna fyrir þau áhrif, sem hann hafði á þá.  Lækningum hans var þá gefið það nafn, að hann kvæði niður drauga, en nú á dögum mætti nefna það huglækningar.  Þegar hinir sjúku menn þóttust vita af vofum á gægjum hér og þar flutti hann kvæði af munni fram og vísaði hinum illu öndum á bug.  Kallaði hann þá alla helga krafta sér til fulltingis.  Hef ég séð eitt kvæði eftir séra Snorra ort við slíkt tækifæri. Voru þar meðal annars þessar hendingar;

 

Stattu nú hjá mér, sterki drottinn,
Styð þú mig að báðum hliðum.
Drottinn náðar, vörn mér veittu,
Verjan mín, þá ég nú berjumst.

 

Með þess konar kveðlingum vannst það á, að hugsjúkir menn urðu þess fullvissir, að Snorri prestur hefði kveðið niður alla þá óhreinu anda, sem voru að gjöra þá ærða.  Sökum þess sköpuðust þau ummæli, að séra Snorri hefði kveðið niður sjötíu drauga þar á Húsafelli, aðrir sögðu sjötíu og einn draug.

Átti hann að hafa kveðið þá alla niður í einni rétt þar í túninu. Merki þessarar réttar sjást í Húsafellstúni og heitir hún ennþá Draugarétt.  ( sjá sögugöngu um Húsafell).
Jónas Guðmundsson, smiður á Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi (d. 1899) sagði textahöfundi, að hann hefði einu sinni á unglingsárum sínum séð Guðnýju Snorradóttur.
Bjó hún þá í Ambáttarhól við Flókadalsá.  Þótti honum gaman að sjá þessa gömlu og sérkennilegu stúlku.  Jónas var gáfaður, skáldmæltur og íþróttamaður hinn mesti.  Langaði hann að fræðast af Guðnýju um listir föður hennar.
Var hún góð viðtals og leysti úr spurningum.  Að síðustu sagðist Jónas hafa spurt, „Var hann göldróttur, hann faðir þinn?“ – Ó, nei barnið mitt, hann var ekki göldróttur, allt sem hann gat, gjörði hann með guðs fingri.    
Séra Snorri fékkst víst lítið við ljóðagerð á yngri árum, en í ellinni fór hann að stytta sér stundir með kveðskap.  Var hann þá mikið að glíma við forna og fáheyrða bragarhætti. 

Kvað hann þá stundum dýrar en list hans leyfði, mátti því kalla sumt af ljóðum hans samanbarið
Ýmsir samtíðarmenn hans kölluðu hann skáld gott, en aftur á móti hefur hann ekki verið lofaður fyrir ljóð sín af seinni tíðar rithöfundum.  Helst mun hann hafa ort til þess að stytta sér stundir á kvöldvökum og rökkurstundum, þegar hann var orðinn gamall.  
Jóhönnuraunir orti hann út af þýsku ævintýri.  Eru þær nokkrar rímur, blandaðar eddukenningum og dýrtkveðnum vísnabrögum. 
Segist hann hafa bangað þær saman á einni viku, þegar hann hafi ekki þolað að vinna úti fyrir kulda.  Er það næg sönnun þess, að hann hefur gengið að útiverkum þegar veður leyfðu. Í Þorrabálki, sem er langt kvæði, getur hann þess líka, að hann geti sjaldan sofið í rökkrum og ráði þá oft af að raula sér bögu. Af þessu má sjá, að ljóðasmíðar hans hafa verið í hjáverkum, og það einkum á elliárum hans.   
Þegar hann var á nítugasta ári, orti hann nokkra sálma og þótt þeir væru ekki lýtalausir að fegurð né formi, bendir það á mikla andlega hreysti.  Á níræðasta ári var honum hvorki farið að förlast heyrn né sýn að marki.  Það ár segist Gísli Konráðsson hafa komið að Húsafelli, stóð Snorri prestur þá úti að viðarhöggi.  Spurði Gísli þá samfylgdarmann sinn hvort þetta væri sá nafnkenndi séra Snorri. 

Prestur varð þá fyrri til svars, leit við Gísla og segir; „Ekki verður þú síður nafnkenndur, drengur minn.“ Þessi spádómur rættist.  Hefur Snorri prestur strax lesið skýrleiksmerkin og fróðleiksþorstann út úr þessum dreng, sem þá var aðeins fjórtán ára gamall.

Þegar séra Snorri var sjötíu og níu ára gamall var Björn, sonur hans, prestvígður honum til aðstoðar 1789.  Séra Björn missti heilsuna eftir eins árs prestþjónustu og varð að láta af embætti.  Hann dó 27. Des. 1797 á Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Kona séra Björns Snorrasonar var Rannveig Grímsdóttir.  Þau áttu tvö börn, Snorra og Elísabetu, sem varð kona Magnúsar Jónssonar frá Deildartungu, Þorvaldssonar. Séra Jón Grímsson var sonur Gríms Ásgeirssonar í Götuhúsum í Reykjavík og Vigdísar Sigurðardóttur, fæddur 4.
September 1772, prestvígður að Húsafelli 25. maí 1797.  Kvæntist 22.júní sama ár Helgu Lýðsdóttur, sýslumanns Guðmundssonar.     Þeir séra Snorri og séra Jón lifðu saman á Húsafelli í sex ár og fór vel á með þeim.  Ekki lagði séra Snorri prestverkin að öllu leyti niður með komu séra Jóns að Húsafelli.  Messaði hann þar heima fram á 90 ára aldur.  Haft er eftir Jóni í Deildartungu, að vorið 1800 hefði hann fengið að ríða til Húsafellskrikju.  Var hann þá lítill drenghnokki.  Þá messaði séra Snorri.  Varð Jóni þessi ferð mjög eftirminnileg.  Hafði hann langað mjög til að sjá þennan öldung, sem svo margvíslegar sögur bárust afVarð ræða Snorra prests fastari í huga hans en annað, sem hann heyrði til presta á þeim árum.
Snerist hún um afturhvarf og iðrun og var snjöll og vel flutt.  Var þetta vers úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar inntak ræðunnar:


Lætur hann lögmál byrst
Lemja og hræða.
Eftir það fer hann fyrst
Að friða‘ og græða.


Virtist Jóni þessum háaldraða manni farast messugjörðin prýðisvel.  En ekki fannst honum minna til um það, þegar þessi gamli prestur fór eftir messu að spjalla við hann sem jafningja sinn og með hlýju vinarbrosi og gamanyrðum bað hann segja sér fréttir neðan úr byggðinni.  Þótti Jóni það einhver eftirminnilegasta ferð, er hann reið að Húsafelli og hlýddi á þessa messugjörð og hafði þar eftir setið á tali við séra Snorra og þegið hjá honum veitingar.     Eftir níutíu ára aldur fór séra Snorra að daprast sýn og hnigna heilsa.  Lést hann á Húsafelli 15. Júlí 1803. Níutíu og þriggja ára gamall.  Var hann jarðaður þar á bak við kirkju.  Hafði hann, eins og séra Jón Grímsson orðaði það, borið prestsembættið með elsku og æru árin sextíu og tvö betur.  Jakob Snorrasonsmíðaði vandaðan stein á leiði föður síns.  Séra Jón Grímsson samdi og lofsamlega grafskrift, þarsem hann lýsir séra Snorra eftir eigin kynningu.  Telur hann „frægan af kenningu, mælsku og mánndáð, glaðlyndan, skemmtinn og hugljúfa hvers er þekktu.  Flestum lærðari í föðurlandsmálum og norrænnar tungu fræðum.“  Margt fleira telur hann honum til frægðar, og er það ljós vottur um einlæga vináttu, sem hefur verið þeirra á milli.  Séra Jón Grímsson hafði verið hinn liðlegasti maður og hagorður vel.  En hann sýktist af holdsveiki á unga aldri og dó úr þeirri veiki þrjátíu og sjö ára gamall, 24. Apríl 1809.  Helga Lýðsdóttir, kona hans dó á Húsafelli 1813 fjörutíu og sex ára gömul.  Séra Jón var síðasti prestur á Húsafelli.  Þau hjón, séra Jón og Helga, áttu eina dóttur, Margréti að nafni.  Hún giftist Jóni Sæmundssyni í Narfakoti í Njarðvíkum.   Ættir voru frá þeim komnar þar syðra.  Eftir lát séra Jóns flutti Jakob Snorrason að Húsafelli. 
Hafði hann þá áður búið bæði á Búrfelli í Hálsasveit og Stóra-Kroppi í Reykholtsdal.  Jakob unni mikið bæði jörð og kirkju á Húsafelli.  Þar hafði hann lifað sín bernsku og æskuár.  Jakob vildi halda við bæði kirkju og grafreit, þótt prestsetrið væri lagt niður.  Þá ósk fékk hann ekki uppfyllta. Kirkjan var seld til rifs 1811.  Þrír synir séra Snorra urðu fulltíða menn: Jakob, Björn og Einar.

 
Frá þeim öllum eru ættir komnar.  Fjórar dætur hans urðu fullorðnar: Kristín, Helga, Guðrún og Guðný.  Tvær þær fyrr töldu giftust, en engar ættir eru frá þeim komnar.

Þess hefur verið getið til, að séra Snorri hafi gert þessa skiptingu á kvíunum til þess að hægt væri samtímis að mjólka þar ær í annarri krónni, en geitur í hinni. Hef ég heyrt að um eitt skeið hafi hann haft lítið færri mjólkandi geitur en ær.  Stóðu geitakofarnir uppi við fjallið utan Bæjargils.  Var geitfénu beitt mest í Bæjarfellið, sem þá var þakið stórvöxnum skógi, sem féll skyndilega í lok 18. aldar.  Var því kennt um, að geitféð hefði í harðindum nagað svo brum og börk skógarins, að það hefði riðið honum að fullu.  Mjög er líklegt, að þessi tilgáta hafi við góð rök að styðjast, en trúlegt er, að skógarmaðkur hafi þar þó valdið mestu grandi.  Til sönnunar þess, hve sagnir og örnefni, sem eiga öll einhverja sögu, geymast vel í afdölum, þar sem hinn sami ættleggur býr mann fram af manni, eins og verið hefur á Húsafelli síðan á dögum Snorra, að tóftabrot þau, sem eftir standa af geitahúsunum, eru alltaf kölluð í daglegu tali á Húsafelli Geitakofar


 

Kvíarnar á Húsafelli.
Þegar séra Snorri kom að Húsafelli, tók hann upp þá nýjung að láta reka ær heim til mjalta og lagði selið niður.  Byggði hann þá kvíar fyrir austan og ofan túnið, rétt við farveg Bæjargilsins, sem þar fellur beint niður úr snarbröttu fjallinu.  Var þar gott um grjót, sem gilið hafði kastað niður á láglendið í flóðum.  Eru kvíar þessar byggðar úr hinu mesta stórgrýti, og eru margir steinar þar stærri en svo, að nokkur einn maður hræri slík björg.  Eru þau talandi votturþess, að þar hafa verið knáir menn að verki.  Veggur gengur í gegnum kvíarnar miðjar og skiptir þeim í tvær jafnstórar krær.  Þær eru tvídyraðar.  Tekur hvor þró sextíu til sjötíu ær.  Langstærsti steinninn er um miðjan norðurútvegg.  Í kömpunum við dyrnar eru líka svo stórir steinar, að engu hefur þurft á að bæta til þess að þar væri hin fyllsta vegghæð.   

 

Fyrst að láta hana upp á norðurkamp hinna syðri kvíadyra.  Það hafa nokkrir menn leikið á öllum tímum.  Samt mega þeir teljast mikið knárri en meðalmenn, sem gera það skjótlega og þrautalítið.  Önnur   þrautin var að láta helluna upp á stein þann hinn stóra, sem er um miðjan norðurvegg kvíanna.  Á þann stein er höggvið „Snorri.“  Áður á tímum þurfti næstum því að rétta sig upp með helluna til þess að láta hana á stóra steininn, en við það hefur flestum orðið aflfátt.  Nú hefur jarðvegur hækkað mikið umhverfis kvíarnar frá því sem áður var, fyrir áburð, sem út hefur verið mokað, og einnig komið frá fénaði, sem legið hefur við kvíaból.  Þriðja   og þyngsta þrautin var að taka helluna upp á brjóst án þess að neyta stuðnings af kvíaveggnum og bera hana umhverfis kvíarnar.  Sagt hefur verið , að séra Snorri hafi leikið sér að því.  Ekki er hægt að rengja slíkt, þó að hann væri af frískasta skeiði, er hann kom að Húsafelli. 

Þrjár voru þær þrautir, er menn skyldu inna af hendi við þessa hellu til þess að þeirra yrði að nokkru getið.
Hafa þeir haldið sínu upprunalegu nafni, þótt fallnir séu í rústir fyrir meira en hundrað árum.  Sama er að segja um mýri, sem er uppi við Bæjarfellið. 
Hún er enn þá kölluð Fellsskógsmýri, þó að þar hafi ekki nokkur skógarhrísla staðið síðan á dögum séra Snorra.  Um allt hið víðáttumikla Húsafellsland er hinn mesti grúi af örnefnum, sem gera landið lifandi og talandi.  Eiga örnefnin sínar sögur.  Margar þeirra eru kunnar en fleiri glataðar og gleymdar.  Eftir að séra Snorri hafði byggt kvíar þær, sem hér er lýst og enn standa óhreyfðar, eins og þær voru frá fyrstu höndum, færði hann þangað stein, er hann lét menn reyna afl sitt á.  Er það blágrýstissteinn, hellumyndaður.  Steinn þessi hefur á Húsafelli alltaf verið kallaður Kvíahella.  Sú venja hefur haldist á Húsafelli frá dögum Snorra og til þess tíma, að menn skoða Kvíahelluna, og þá um leið reyna afl sitt á henni, þeir sem treysta sér mikið. 

 

Húsafellskirkja.
Ekki er vitað hvort á Húsafelli hafi verið einkakirkja bænda þar í öndverðu, en í upphafi kristni í landinu var það algengt, meðan ekki var komin formleg skipan á kirkjuna undir umsjón biskupa eins og síðar varð með tíundarlögunum.  Með vissu stóð kirkja á Húsafelli í um 640 ár, frá því um 1170 þar til hún var lögð niður.  Það fyrsta sem við vitum um Húsafellskirkju er þegar Brandur Þórarinsson „setti stað“ á Húsafelli um 1170, svo sem fyrr er getið, og staða kirkjunnar var skilgreind í fyrsta máldaga hennar.  Í upphafi máldagans segir:     Sá er kirkjumáldagi að Húsafelli að Brandur Þórarinsson leggur þar til kirkju Húsafells land og annað land, er þar fylgir með landsnytjum öllum, þeim er þar fylgja.  Þar skulu fylgja fimm kýr og þrír tugir áa og hundrað fjögurra álna aura í húsbúnaði og búsgögnum.  Þar skal ávalt vera heimilisprestur.  Þar skal syngja óttusöng og messu hvern helgan dag og hvern dag skal þar messu syngja er níu læction eru í óttu söng.  Þar skal syngja messu föstudag hvern og sæludaga alla, annan hvern dag um jólaföstu, en hvern dag um langaföstu.  En ef helgan dag missir tíða, þá skal veita þurfamönnum í þrjú mál.  Þar skal ljós brenna í kirkju frá Maríumessu hinni fyrri fyrir hvern helgan dag til Mikjálsmessu.  Enn hverja nótt frá því uns líður páskavika.
Húsafellskirkja var höfuðkirkja, en útkirkja var í Kalmanstungu og síðar einnig í Stóra- Ási.  Þá var og kirkja á Reyðarfelli, en lögð niður fyrir 1442. ‚i máldaga frá 1504 er að finna þess lýsingu á Húsafellskirkju:     kirkjan á Húsafelli er helguð almáttugum guði og jómfrú Maríu og hinni heilögu Sesselíu.  Hún á heimaland allt með öllum gögnum og gæðum og jörðina Reyðarfell, sem reiknast fjögur hundruð og tuttugugu að dýrleika.  Skipaði biskup Stefán í sinni vísitasíu greinda jörð undir kirkjuna á Húsafelli til tíunda lýsitolla og allar rentu ævinlega hér eftir.     Item á kirkjan sjö kýr og átta ásauðar kúgildi og þrjú hundruð í geldum nautum og tvö hundruð í geldum sauðum.  Hross með veturgömlum hesti fyrir hundrað. 
Tvö hundruð tíundarvirt innan gátta í kötlum, búsgagni, sængum og öðrum þarflegum peningum.  Item hafa gefist þriggja málnytu kúgildi síðan séra Snorri Þorgilsson tók staðinn fyrir fimm árum umliðnum.
Af máldaganum má ráða að Húsafellskirkja hafi verið vel búin í katólskri tíð og meðal gripa hennar sem upp eru taldir má nefna Maríu líkneski minna, eitt sankti Sesselíu líkneski og Margrétar líkneski; silfurkaleik með patínu, þrenn messuklæði og kantarakápu, sex klukkur og bjöllur og mikið af bókum.

Eftir siðaskipti rýrnaði kostur Húsafellskirkju smám saman, og þegar séra Snorri tekur við Húsafelli 1757 var bæði húsakostur lélegur og kikjugripir fátæklegir og úr sér gengnir.  Kirkjan er í fimm stafgólfum, þiljuð innan að sunnanverðu og næst kórnum að norðanverðu.
Prédikunarstóllinn er að hruni kominn, altaristaflan málverkslaus, og kirkjugripir brotnir og bættir.

Séra Snorri lætur byggja nýja kirkju, jafnstóra, frá grunni árið 1768 og smíða nýjan prédikunarstól.  Þetta varð síðast sóknarkirkjan á Húsafelli.  Þegar séra Jón Grímsson lést árið 1809 lagðist Húsafell í reynd niður sem kirkjustaður, en með konungsbréfi 21. Ágúst 1812 er Húsafellsprestakall lagt niður.  Voru þá af teknar kirkjurnar á Húsafelli og Kalmanstungu, og Kalmanstungusókn lögð til Gilsbakkakirkju, en Húsafellssókn til Stóra-Áss, og sóknin í heild lögð undir Reykholt.  Kirkjugripunum var skipt á milli nærliggjandi kirkna, en þó mest til kirkjunnar í Stóra-Ási.  Kirkjugarðurinn á Húsafelli var allur hlaðinn úr torfi og stóð kirkjan í honum miðjum.  Allur féll hann í rúst eftir að kirkjan var rifin.  Allt fyrir það hvíldi helgin yfir þeim stað í augum hinna eldri manna sem áttu þar feður og mæður, vini og vandamenn grafna.  En með tímanum fyrntist yfir allt slíkt nema í hugum þeirra barna séra Snorra, Jakobs og Guðnýjar, var helgi kirkjugarðsins óafmáanleg.  Jakob kaus sér legstað við hlið föður síns.  Hann dó 21. Júlí 1839.  Var hann jarðaður á þeim stað eftir ósk hans. Þorsteinn sonur hans smíðaði legstein yfir hann.  Séra Jón á Möðrufelli samdi grafskrift á þennan stein, þar á meðal þetta vers:


Sofðu nú rór í svölu skauti
Signaðrar móður litla stund.
Eftir afliðnar æviþrautir
        unir þín sál í fögrum lund.
Dómklukka þegar drottis slær,
Dauðinn þér aftur skilað fær
                       

Þannig setti virta vini Jón pr. Jónsson Eyfirðingur.


Nokkrum árum eftir lát Jakobs Snorrasonar dó Kristín kona hans á Húsafelli.  Þessir látnu ástvinir, séra Snorri, Jakob og Kristín, hvíla hlið við hlið bak við hina fornu kirkjutóft.  Guðný Snorradóttir dó á Sturlureykjum 6. Des. 1852.  Eftir ósk hennar var hún jörðuð á Húsafelli.  Kirkjuklukka var flutt frá Stóra-Ási við allar þær jarðarfarir, sem fóru fram á Húsafelli, eftir að kirkjan var lögð þar niður.  Annars var ekki krafist af hlutaðeigandi sóknarprestum.

Þegar Þorsteinn Magnússon, bóndi á Húsafelli frá 1875-1906, var búinn að jafna allar þúfur við jörðu, sem þar voru í túninu, langaði hann til þess að gjöra kirkjugarðinum sömu skil og breyta honum í fagra flöt.  Þorsteinn var framsýnn og athafnamikill fjáraflamaður, en gaf sig lítið við því að horfa um öxl til hinna fornu feðra.
Þótti honum meiri arður og bæjarprýði að grasgefinni flöt en garðrúst með gömlum leiðum.  Kona Þorsteins var Átríður Þorsteinsdóttir,  hún líktist feðrum sínum í því að vera nokkuð forn í skapi.  Batt hún tryggð við allt það sem í hennar augum var gott og gamalt.  Meðal þess var kirkjugarðurinn á Húsafelli.  Krafðist hún þess, að innan veggja hans skyldi hvert leiði vera friðheilagt um aldur og ævi.  Þorsteinn kunni að meta ættartryggð og skörungsskap konu sinnar og sneri ræktunarstarfi sínu á aðra staði þar umhverfis.
Nú hefst hin nýja og merkilega saga um þennan kirkjugarð.  Maður nefnist Jakob Guðmundsson frá Kolstöðum í Hvítársíðu (f. 1873).

Amma hans í móðurætt var Halldóra Jakobsdóttir Snorrasonar á Húsafelli.  Jakob hefur verið ókvæntur alla ævi og síðastliðin tuttugu og átta ár starfandi maður á Húsafelli. 

Hann hefur bundið mikla tryggð við ættmenn sína þar og umhverfi þessarar fögru jarðar.  Veturinn 1928-1929 dreymir hann séra Snorra.  Segist prestur vera kominn til þess að biðja hann einnar bónar, sem honum riði á að hann neiti ekki.  Jakob spyr hvers hann vilji beiðast.  „Ég vil biðja þig að afstýra því, að klaufdýr troði um leiði mitt.“  Þessi draumur endurtók sig þrisvar sinnum sama veturinn.  Í síðasta sinn bætti prestur því við, að nú ætlaði hann ekki að nefna þetta oftar.  Þessi draumar urðu svo áleitnir á huga Jokobs, að hann gat ekki látið þá sem vind um eyrun þjóta.  Hann ræðst þá í að kaupa bæði sement og traust vírnet og með því reisir hann vandaða girðingu á hinum fornu kirkjugarðsveggjum.  Yfir sáluhliðið var steyptur steinbogi og í hliðinu er járngrind.  Nú var hin forna helgi kirkjugarðsins enduvarkin 20. September haustið 1930.  Þann dag var Ingibjörg Kristleifsdóttir, kona Þorsteins Þorsteinssonar bónda á Húsafelli, jarðsett þar í kirkjugarðinum.  Það var á björtum og blíðum sólskinsdegi.  Ekki lét Jakob Guðmundsson við það sitja að girða kirkjugarðinn og vann að því öllum árum að kirkja yrði á ný reist á Húsafelli.  Sá draumur rættist og ný kirkja var byggð á árunum 1950-1973.  Útlit hennar er eftir hugmynd Ásgrims Jónssonar listmálara, en Halldór H. Jónsson arkitekt teiknaði hana.  Hún er hlaðin úr holsteini, en klædd utan með timbri.  Kirkjan var vígð árið 1973 af Sigurbirni Einarssyni biskupi.  Páll Guðmundsson (f. 27-3-1959) myndhöggvari og málari á Húsafelli málaði altaristöflu í kirkjuna, hjó skírnarfont úr rauðu grjóti og gerði höggmynd af upprisunni á prédikunarstólinn.  Aftast í kirkjunni eru höggmyndir hans af kirkjusmiðnum, Kristni Kristjánssyni, og af Jakobi Guðmundssyni, sem var aðalfrumkvöðull kirkjubyggingarinnar.  Í garðinum var leiði við leiði 1930 svo að ekkert bil var á milli. 

Fyrir nokkuð mörgum árum var allur garðurinn sléttaður og stækkaður, svo að hann umlykur nú nýju kirkjuna.  Enn má þó alls staðar sjá fyrir gamla torfgarðinum sem áður girti hann, og gamla kirkjutóttin var löguð um leið og garðurinn var sléttaður svo að nú sést vel stærð og lögun gömlu kirkjunnar.  Sex legsteinar, sem nú hafa verið fluttir inn í kirkjuna, voru í garðinum og leiðin hafa verið merkt með númerum á hellusteinum og legsteinarnir í kirkjunni eru merktir sömu númerum.  Elstur þeirra er legsteinn séra Gríms Jónssoar frá 1654. Steinninn er listaverk með grafskrift á latínu.  Kross og dúfa eru meitluð efst á steininn og er hann næsta lítið skemmdur.

Í grafskriftinni, sem ekki er lengur læsileg, kvað standa að séra Grímur bíði upprisunnar undir þessari hellu.  Séra Helgi á Húsafelli sonur séra Gríms var hinn mesti ágætismaður að lærdómi, líkamsburðum og gáfum.
Hann gæti haf gert grafskriftina og jafnvel steininn. 

Legsteinn er einnig yfir konu hans, Engilráð Jónsdóttur.  Hann er brotinn í tvennt, en í grafskriftinni stendur meðal annars:    Engilráð sú – sofnaði í trú, - séra Gríms var að brúði.  Þegar séra Snorri Björnsson lést árið 1803 setti séra Jón Grímsson honum langa grafskrift og sést á henni hve mikils hann mat fyrirennara sinn.  Hún er á þessa leið eins og birtist í ævisögu séra Snorra eftir Sighvat Borgfirðing:

                        Hér er leiddur – hærum prúðbúinn – Húsafelssprestur – Snorri Bjarnarson. – Fæddur 3. Október 1710. – Dáinn 15. Júlí 1803. – Frægur – að kenningu, mælsku og manndáð. – Bar prestsembætti með elsku og æru – árin sextíu og tvö betur. – Fleirstum lærðari í föðurlands máli - -og Norrænnar tungu fornum fræðum. – Átjándu aldar annað skáld besta, - og hagorðasta í hverjum brag. – Skipstjórnari besti, syndur sem selur. – Með báðum þeim listum bjargaði mönnum – úr dauðans háska drengilega. – Kunni handahlaup, skipasmíðar. – Huggóður, prúður, hetjulíki. – Rammur að afli, réttkallað mannval. – Gestrisinn blíður, glaðlyndur, skemmtinn. – Hugljúfur hvers, er þekktu. – Meður ástsælum ektamaka – í friðarböndum fimmtíu og tvö ár, - er nú eftir þreyr. – Eignaðist tólf börn. – Hverra fimm syrgja sígóðan föður. – En varð afi nítján niðja, - síns húss og ættar yndi, stoð og blóm.   Lærum dyggðir,menntir og listir, meðan lifum. – Lærum svo lifa oss og meðbræðrum gagns til og góðs. – Að sál farsæl lifi og fullsælu nái í heimi farsælli.    Mætt mannorð lifir hér þó moldir fúni. – Formanni sínum til minningar setti Jón prestur Grímsson.


Þessi grafskrift er að mestu leyti letruð á grafminningartöflu eftir séra Snorra sem nú er í Þjóðminjasafninu.  Einnig er hún að miklu leyti letruð á legstein, sem Jakob Snorrason gerði á leiði föður síns.  Sá legsteinn, stóðst illa veðrun.  Árið 1928 var steinninn orðinn brotinn og skemmdur mjög og þótti þá við eigandi að setja Snorra nýjan minnisvarða.  Steinn úr líparíti var þá höggvinn og settur á leiðið og sá brotni lagður til hliðar.  Þann stein hjó Árni bóndi og smiður Þorsteinsson á Brennistöðum í Flókadal, en hann var af kyni Jakobs Snorrasonar.  Nú liggur sá steinn flatur á leiði Snorra að kórbaki gömlu kirkjurústarinnar, en brotin úr gamla steininum eru í kirkjuni.  Um legstein Jakobs Snorrasonar, sem lést 1839, er áður getið, en einnig er þar legsteinn yfir konu hans, Kristínu Guðmundsdóttur, sem lést 1851.  Steinninn er með handbragði Gísla Jakobssonar í Augastöðum, sonar hennar, og er gerður úr bláu grjóti úr Bæjargilinu.  Síðust var jörðuð þar á 19. öld systir Jakobs, Guðný Snorradóttir árið 1852.  Legsteininn yfir hana gerði áðurnefndur Gísli.  Steinninn er úr líparíti og er látlaus að gerð.  Grafskriftina gæti Gísli hafa gert sjálfur, en fyrir því eru aðeins munnlegar heimildir.  Fyrir utan fæðingar- og dánarár stendur þetta á steininum:  Hún var guðrækin, gáfuð vel, - varð mæðu mett, meðan lifði. – Leið sál sem ljós, til ljóss byggða, - og drykkjast þar dýrðar straumi

 

Orlofsjörð á tuttugustu öld.
Á vegferð manna á fyrri tíð lá leið yfir Arnarvatnsheiði, Tvídægru og Kaldadal eða fyrir Ok milli norður- og suðurlands.  Voru þá Húsafell og Kalmanstunga sjálfkjörnir áningarstaðir.  Ekki hefur verið tekið mikið fyrir beina en þó eitthvað.  Nokkuð var verslað við ferðamenn en líklega sjaldan af mikilli hagsýni.  Mikill gestagangur var kallaður gestanauð.  Á harðindaárum ekki síst í Móðuharðindum var mikið af snauðum umrenningum og hafa þeir örugglega ekki greitt neitt fyrir sig.  Uppúr aldamótum  fór þessi gestastraumur nokkuð þverrandi. Þá var komin póstleið yfir Holtavörðuheiði og ferðamannastraumurinn fylgdi í kjölfar póstsins.  Árið 1930 verða þáttaskil í ferðamannastraum á Húsafelli.  Þá var Kaldidalur gerður bílfær og var eina bílfæra leiðin úr Reykjavík norður í land næstu tvö árin.  Þá var settur bensíntankur á Húsafelli og þá var 1000 ára afmælis Alþingis minnst hátíðlega á Þingvöllum.  Mikil umferð var í sambandi við Alþingishátíðina.  Flestir komu við á Húsafelli. 

Þorsteinn bóndi Þorsteinsson hafði fast starfsfólk til að annast gesti og það hafði ærinn starfa. Stundum voru allt að 20 næturgestir í 60fm tveggja hæða húsi með kjallara.  Oft var sofið í hlöðum en ekki mikið tjaldað.  Hvalfjarðarleið varð fær árið 1932 og minnkaði umferðin um Húsafell smám saman við það.  Þorsteinn sótti um 10 þúsund króna þingstyrk til að byggja gistihús árið 1930 en var synjað.

 

Mekka myndlistarmanna.  

Auk ferðafólks voru jafnan svonefndir setugestir en þeir voru að hluta málarar og skáld.  Margir þeirra urðu minnisstæðir og komu aftur og aftur.  Meðal þeirra fyrstu sem vöndu komur sínar að Húsafelli og dvöldust þar á sumrin á árunum 1915 og fram yfir  1920 voru listamennirnir ástsælu Ásgrímur Jónsson, Jón Stefánsson, Júlíana Sveinsdóttir og Guðmundur Thorsteinsson (Muggur) og voru þau öllum ógleymanleg sem kynntust þeim. 
Margir fleiri listamenn komu þangarð til lengri eða skemmri dvalar, en meðal þeirra voru málaranir Jón Þorleifsson og Þorvaldur Skúlason,

skáldin Kristmann Guðmundsson, Halldór Laxness, sem að vísu lá í tjaldi, Agnar Þórðarson og Þórunn Elfa, og tónskáldið Hallgrímur Helgason.

Í bókinni „Ásgrímur Jónsson“ segir Hrafnhildur Schram svo:  Á ferðalögum sínum um landið kom Ásgrímur fyrst að Húsafelli í Borgarfirði sumarið 1915, og þangað sneri hann aftur og aftur alveg fram á sjötta  áratuginn.  Þar fann hann í hnotskurn náttúru Íslands; formfögur og litsterk fjöll, hvelfdar jökulbungur og mosavaxnar hraunbreiður, og hann málar fjallahringinn, hraunið og skóginn af mikilli ástríðu í nær fjóra áratugi,  Húsafell varð einskonar Mekka myndlistarmanna, og eru ófáar Húsafellsmyndir í íslenskri myndlist.  Sjálfur segir Ásgrímur svo frá í minningum sínum:     Ég átti í fyrsta sinn langdvöl á Húsafelli sumarið 1915.  Þá bjó þar frú Ástríður Þorsteinsdóttir, móðir Þorsteins bónda Þorsteinssonar.  Frú Ástríður var merkileg kona, góð og gestrisin, fróð og minnug.  En einkennileg var hún um sumt og sá fleira en aðrir, og sennilega hefur hún haft ríka skyggnigáfu til að bera.  Hún bar líka furðulegt skyn á málverk og hafði mikla ánægju af þeim. 

Átti hún um þetta sammerkt með frændkonu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur.  Voru þær frændkonur vanar að fylgjast nákvæmlega með því, sem ég var að mála, og báðar létu þær sér mjög annt um mig.
Hygg ég að ýmsir listmálarar, er tóku seinna að venja komur sínar að Húsafelli, hafi af þessu sömu sögu að segja.  Guðrún er mesta ágætiskona, trygglynd og hjartahrein, en auk þess mjög bókhneigð og hefur fjöldann allan af ljóðum góðskáldanna á hraðbergi.   Ég kunni jafnan ágætlega við mig á Húsafelli og þótti mér sérstaklega gott að mála þar.  Ég fór venjulega snemma að heiman á morgnana og átti þá einatt langa göngu fyrir höndum.  Stundum fór ég allt niður fyrir Hraunsás, en það er hálfrar annarrar klukkustundar gangur og þurfti ég þá oft að vaða eina á eða tvær á leiðinni.  Ég hafði því að jafnaði með mér einhvern nestisbita og kom ekki heim fyrr en seint á kvöldin.  En ég undi vel hag mínum úti í náttúrunni og þurfti aldrei að kvíða neinu ónæði eins og við ber á fjölfarnari slóðum, svo sem á Þingvöllum.  Mér vildi líka til happs, að ég hef alltaf kunnað því vel að fara nokkuð einförum og er auk þess þeirrar skoðunar, að ekki sé unnt að kynnast náttúrunni að verulegu ráði nema með því að vera talsvert mikið einn með henni

 

Kristleifur Þorsteinsson,
bóndi og hreppstjóri, fæddist á Húsafelli 11. ágúst 1923.
Hann andaðist á Grensásdeild Landspítala 7. febrúar 2003.

Kristleifur var sonur hjónanna á Húsafelli,
Þorsteins Þorsteinssonar,
f. 6. júlí 1889, d. 3. febrúar 1962,
og Ingibjargar Kristleifsdóttur,
f. 28. nóvember 1891, d. 8. september 1930.

 

Systkini Kristleifs eru:
Magnús, f. 1921, bóndi í Vatnsnesi í Grímsnesi, Þorsteinn,f. 1925, lífefnafræðingur í Reykjavík, og Ástríður, f. 1927, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík.

 

Kristleifur ólst upp á Húsafelli og átti þar heima alla ævi. Hann var á Bændaskólanum á Hvanneyri 1942-1944. Á unga aldri var hann mikill íþróttamaður og einkum var hann kunnur skíðamaður. Hann hóf hefðbundinn búskap á Húsafelli 1958, en 1968 hætti hann kvikfjárbúskap og sneri sér að ferðaþjónustu. Hann varð þjóðkunnur fyrir brautryðjandastörf sín á því sviði og hlotnaðist fjöldi viðurkenninga, m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.