Húsafell

Húsafell Bistró: 435-1550

restaurant@hotelhusafell.is
Hótel Húsafell: 435-1551

booking@hotelhusafell.is

Sundl./swimming pool:

435-1552

Tjaldsvæði/camping:

435-1556

camping@husafell.is

 

Bergþór Kristleifsson

husafell@husafell.is


 

 Náttúran

Perla milli hrauns og jökla

Landareign Húsafells er milli Geitár og Deildargils og svo eins og hagar ná upp til jökla. Þetta eru 100 ferkílómetrar á að giska, en ef miðað er við að kind geti tínt strá í sig, upp til vatnaskila á Kaldadal og sem næst upp til fanna í Okinu.  Um það má svo deila hvað orðið hagar merkir. Þetta land er að miklum hluta urð og grjót með grastoppa í skjóli og geldingahnappa og melskriðnablóm á stangli.Sjálfur dalbotninn með Húsafellsskógi er gróðursæll og fjallshlíðarnar eru grónar upp til eggja og víðáttumikið graslendi er upp á fjalli.  Þessa gróðurvin höfum við kosið að kalla „Perlu milli hrauns og jökla“.

Húsafellsskógur er lágvaxinn birkiskógur á hrauni sem hefur myndast fyrir landnám.  Veðursæld á Húsafelli er mikil og “ einhvers staðar stendur“ að dalbotninn sé einn af veðursælustu stöðum landsins. Húsafell er ríkt af auðlindum, bæði heitu og köldu vatni sem gerir staðinn góðan til búsetu og orlofsbyggðar. 

Heita vatnið kemur úr borholum í Selgili sem er frá árinu 1986 og er 218 m. djúp og gefur 20 l á sek. Af 77° vatni.  Í Hveragili var borað árið 2002 sú hola er 606m djúp á ská inn í fjallið og gefur 20 l á sek. af 64° af vatni.  Áður en  borað var, var vatni veitt úr laugum í Selgili og nýtt m.a. í sundlaug og til upphitunar húsa.  Fyrr á öldum notuðu Húsfellingar laugarnar til þvotta.    Vatnið sem rennur frá jökli í gegnum hraunið og helst 4° allt árið um kring, myndar lindir s.s. Kaldárbotna, Stuttárbotna og Kiðárbotna. Neysluvatnið á Húsafelli kemur nú úr borholum ofan við orlofssvæðið.  Vatnið úr lindunum hefur verið  virkjað til framleiðslu á rafmagni og eru  nú þrjár virkjanir á Húsafelli. 
Dýralíf á Húsafelli er fjölskrúðugt, mikið af spörfuglum og endur á tjörnum. Krummi og snjótittlingar hafa hér vetursetu.  Tófur, minkar og mýs búa hér í gróðursældinni og holum í hrauninu. 


Fjallahringurinn á Húsafelli er stórkostlegur og nálæg fjöll og jöklar vel  þess virði að skoða nánar.

 

Fjallahringurinn á Húsafelli

 

Bæjarfell og Útfjall: 
Bæjargilið  er fyrir ofan Gamla bæinn skilur í sundur Útfallið og Bæjarfellið.

Útfjall er nafn sem bundið er tveimur landsvæðum.  Annars vegar er það hlíðin fyrir ofan og vestan bæinn og sést ekki sem fjall sunnan frá því að það er aðeins norðurhlíð hálendisins sem gengur upp til Oksins.  Hins vegar var allt graslendið vestan Bæjargils nefnt, Útfjall þegar rætt var um smalamennskur og grasnytjar.  Fjallshlíðin er rúmir 3 km að lengd og hækkar til austurs, hæst 350 m en lækkar niður í löngum höllum. 

Nokkur jarðhiti er í miðjum hlíðum vestan við bæinn.  Þar eru nokkrar laugar sem hafa dugað til upphitunar á Húsafelli síðan 1939.  Líparítskriður og móberg eru í hlíðunum.  Í vestasta hala fjallsinsá Lágahryggnum , er birkiskógur.  Ýmis örnefni eru á Útfjallinu.  Miðmundaslakka, Miðmundamýri og Nónvörðu og Nónskarð má nefna af eyktamörkum.  Giljaklofar, Hringur og Giljatungur eru svæði uppi á fjallinu.
Teitsgilshæð og Bæjarfell næstum samvaxin eru svo sunnnan við Selgilið. Bæjarfellið er 578 metrar á hæð, Teitgilshæð 540-560 metrar. Grasi grónar hjallar, Smérpallarnir, eru næst Selgilinu í Teitsgilshæð, en ofan við þá eru litlar klettabrúnir. Hæðin er að mestu gróin ern víða bryddir á urðum, einkum í vatnsfarvegum og í brúnum hjallanna.
Milli Teitsgilshæðar og Bæjarfells er þvergil í Selgilið, mikið klettagil og vítt. Það heitir Teitsgil. Botnar þess eru líkastir stórum hvammi upp af klettunum og heita auðvitað Teitsgilsbotnar. Bæjarfellið er ávöl hæð að sunnan séð, milli 60 og 75 metrum hærra en bærinn á Húsafelli og er þaðan séð vænt fjall. Upp af bænum er hlíðin grasi gróin, en þegar hærra dregur  taka við nokkuð víðir hjallar með litlum klettum í brúnum. Allstórt líparítinnskot er ofarlega í fjallinu og ofan á því móberg. Þarna eru mörg örnefni, Neðri-Flesjur, Efri-Flesjur og Kúadalir eru heiti á hjöllum, misvíðum. Kinn, Teitsgilskinn og Lurkabrekkur eru heiti á grashlíðum. Nú er enginn skógur í Fellinu en á 18 öld var besti skógurinn á Húsafelli í hlíð Bæjarfells. Skáholtsbiskupar töldu sér þá ítak í skóginum (sbr. Jarðarbók Árna og Páls, IV),  og deildu Húsafellsklerkar við þá um ítakið. Lauk þeim deilum með séra Snorri skar á silana á raftaklyfunum þegar Skálholtsmenn komu þangað að fella skóg. Talið er að Fellsskógur hafi fallið eftir Móðuharðindin og geitabeit kennt um.

Selfjall er að mestu úr móbergi en með stóru líparítsinnskolti eins og önnur fjöll á þessum slóðum.  Húsafellsskógur teygir sig upp í þetta fjall og heitir þar Múlaskógur.Hann féll á bletti fyrir tveimur til þremur áratugum og var þá gert tún í rjóðrinu og er það til lýta enn í dag.  Efst á Selfjalli er stórt Grettistak við litla hæð sem heitir Grettishæð.  Grettistakið er drangur um 3 m á hæð og um metri á hvern veg og sést langt að.  Norðan við Selfjallið eru sléttar grundir milli þess og gamals hraunjaðars. 
Þar var fyrr á öldum vinsæll áningarstaður ferðamanna og síðar engjar frá Húsafelli og enn síðar tún.  Nú er það að falla í órækt á ný.  Þarna heitir „Fram með hlíð“ og er það orðasamband notað sem örnefni.  Upp af engjunum er fjallið bratt með litlum klettabeltum á einum stað.  Á einni flötinni mátti heyra nífalt bergmál úr hlíðinni ef vel viðraði til þess.  Í gili í hlíðinni, Mógili, er að finna blágráan leir.  Var hann kallaður deigulmór áður fyrr og notaður til að múra smiðjur.

 

Bæjargil

Selgil,  Teitsgil og Bæjargil;   

Selgil skilur að Bæjarfell og Teitsgilshæð annars vegar og Selfjall hins vegar.  Þetta er neðan til V-laga skriðugil með stökum klettum.  Ljóst líparít er aðalefnið í skriðunum, sums staðar líparít myndað við gos í vatni, „móbergslíparít“  eftir því sem Haukur Jóhannesson jarðfræðingur upplýsir. Fyrsta kíómetrann upp gilið eru þessar marglitu skriður í norðurbakkanum en suðurbakkinn er óreglulegur með grashvömmum og slitnum litlum móbergsskriðum.  Þar sem gilið víkkar fyrst nefnist Lambahvammur, hann er lyngi og grasi vaxinn, skammt innan við Lambahvamm er húslaga steinn, nokkrir metrar á hæð, er þar við læk. Þetta er Dvergasteinn í Dvergahvammi.  Jarðhiti er í Selgili rétt þar sem það mætir Teitsgili.  Í Teitsgilsbotninum eru líka nokkrar laugar.

Ofan við bæinn á Húsafelli er Bæjargil, vítt og djúpt skriðugil V-laga eins og Selgil.  Það aðskilur Bæjarfell og Útfjall .  Í því er hár foss nokkur hundruð metrum innan við gilkjaftinn og þar grynnkar gilið mikið.  Austan við fossinn eru lagskiptir klettar, Hádegisklettar.  Í gilinu er að finna rautt og blátt grjót, auðunnið.  Úr þessu grjóti hjuggu Húsfellingar legsteina og gerðu reyndar marg a fleiri smíðisgripi, ker og nóstokka.  Nú hefur Páll Guðmundsson á Húsafelli gert margar höggmundir úr þessu grjóti.

 

 

Eiríksjökull  er tröllvaxið fjall.  Um hann sagði Helgi Pjeturss, Jarðfræðingurinn og heimspekingurinn kunni:  Eitt hið fegursta fjall á landinu er víst Eiríksjökull.  Skínandi jökulhvelfingin er svo há og regluleg, að annað eins fagrahvel er ekki að sjá á neinu öðru fjalli; hamrastallurinn útundan jöklinum svo hárog brattur. 

Öll gerðin á fjallinu er slík, að áhorfandanum kemur til hugar einhver goða- eða jötnahöll.  Eiríksjökull er dæmi um fallegan stapa. Undirhlíðar eru úr móbergi, hamrabelti úr grágrýti og hraundyngja ofan á.  Hraundyngjan sem jökulhvelið er á er austanvert á fjallinu. Undirhlíðarnar mynda langan hali til vesturs séð úr suðri og norðri.  Venjulega er gengið á Eiríksjökul upp með austurbakka gils upp á Stallinn, en svo er halinn kallaður.  Hamrabeltin eru sums staðar kleif allt  austur í Flosaskarð.  En þegar lengra dregur í norður úr Flosaskarði er jökull allt fram á klettahengiflugin og þar yrði það hvers manns bani að villast framaf og ógengt upp.

 

Strúturinn er uppmjótt fjall og ber eflaust nafn sitt af því. Hann er úr móbergi nema innskotslög. Líparítinnskot eru suðvestan í fjallinu. Norðan við Strútskollinn er mikil hvilft í fjallinu sem gæti verið leifar af fornum gíg. Móbergið í fjallinu er ekki vatnshelt og þess vegna skoppa þar engir lækir niður hlíðar; nokkur gil eru í því en þau eru oftast þurr. Norðaustur úr fjallinu er djúpt gil sem er kallað Draugagil.  Það nær upp í „gíginnn“ og er grunnt efst.  Svo grefur það sig niður í hundrað metra djúpt gil. Út úr þessu gili er svo nokkurra metra breitt gljúfur. Það er tuttugu mínútna gangur af skriðuvængnum framan gilsins inn í botn gljúfursins. Þarna gefur að líta bólstraberg, tugi metra á þykkt og í bland eru risabólstrar sem eru eins og stórar dökkar rósir í bergveggjunum. Jarðfræðingar kalla risabólstra bergrósir. Innst inni í gljúfrinu er lítil útvíkkun sem er nálægt tíu metrum í þvermál. Þarna endar gljúfrið í þverhnýpi.

 

Hafursfell er við hliðina á Eiríksjökli, samvaxið Langjökli en gnæfir þó yfir jökulbunguna.  Ef til vill eru Bungurnar hafrarnir sem fjallið dregur nafn af. 

Vestan undir háfjallinu er fönn og mun hún vera í rústum gígs.  Í Hafursfelli er  móbergið ekki vatnshelt og því engir lækir, aðeins þurr gil eru á stöku stað í hlíðum þess.  Þó er gil á milli fjallshnjúkann á einum stað og eftir því rennur jökulvatn.  Þetta er Hafragil og er það eina jökulkvíslin sem fellur til Hvítaár áður en hún og Geitá falla saman.

 

 

Séð yfir Tungu, Strút, Eiríksjökul, Hafursfell, Langjökul og Selfjall

 

Hraunfossar og Barnafoss  eru falleg og sérstæð náttúrufyrirbæri og þangað leggur fjöldi ferðamanna leið sína til að skoða þessar stórkostlegur náttúruperlur. Hraunfossar eru tærar og kaldar lindir sem koma undan hrauninu og renna í fossum og flúðum niður Hvítá.  Barnafossinn sjálfur hefur verið að breytast í manna minnum en áin hefur grafið sig niður úr hrauninu og rennur í djúpu og þröngu gljúfri. Áður fyrr var steinbogi yfir fossinn sem var samgönguleið á milli Hálsasveitar og Hvítársíðu.  Um nafngiftina á Barnafossi er eftirfarandi saga; Einu sinni bjó ekkja í Hraunsási.  Hún var efnuð vel og meðal annanrs átti hún Norðurreyki í Hálsasveit. Tvö börn átti hún.  Voru þau komin á legg, er saga þessi gerðist.  Eitt sinn átti að halda aftansöng á jólanótt á Gilsbakka.  Þangað fór Hraunsáskonan með allt sitt fólk, að undanskildum börnunum tveim.  Þau áttu að leika sér heima við.  Tunglskin var og blítt veður.  Þegar fólkið kom heim voru börnin horfin.   Spor þeirra lágu að steinboganum á ánni.  Lét þá móðir þeirra höggva bogann niður með þeim ummælum að yfir Barnafoss skyldi enginn maður komast lífs af um aldur og ævi.  En í minningu barna sinna gaf hún Reykholtskirkju jörðina Norðurreyki. (Kristleifur Þorsteinsson II (1972) Hvítá 276)

Hraunfossar


Surtshellir  er í Hallmundarhrauni um 14 km. Frá Húsafelli í landi Kalmanstungu.  Surtshellir er einn þekktasti og lengsti hellir landsins.  Í  Landnámu er hann talinn kenndur við jötuninn Surt og getur þess að skáld hafi ort kvæði um Surt og flutt honum það í hellismunnanum.   Í Landnámu og Harðar-sögu er talað um flokk illvirkja, sem áttu heima í hellinum og rændu fé af heiðum og úr byggð.  Það var ómögulegt að ráðast gegn þeim í hellinum, því vígið var gott en loks heppnaðist að koma þeim að óvörum þar sem þeir sváfu í lág einni (vopnalág).  Upp úr þessum sögum hefur Hellismanna-saga orðið til, sú sem er fest á bók í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.  Víða í nágrenni eru örnefni sem vísa til Hellismannasögu.

 

Víðgelmir er í landi Fljótstungu um 10 km.  frá Húsafelli.  Víðgelmir er talinn einn stærsti hraunhellir í heimi 148000 rúmmetrar og 1585 m. Langur.  Í hellinum eru falllegar ísmyndanir og dropasteinsmyndir.  Hellirinn er friðlýstur og því læstur.  Upplýsingar um leiðsögn um hellinn eru veittar í Fljótstungu s. 435-1198   Ath. Á köflum er hellirinn erfiður yfirferðar og því mikilvægt að vera vel útbúinn.

 

Langjökull 
Langjökull (1355m) er annar stærsti jökull landsins, u.þ.b. 950 km². Mestur hluti jökulsins er í 1200-1300 m hæð yfir sjó. Hann hvílir á móbergsfjöllum, sem rísa hæst undir honum norðan- og sunnanverðum, þannig að miðhlutinn er nokkurs konar söðull. Margir skriðjöklar ganga út frá jöklinum. Hinir stærstu eru sitt hvorum megin Hagafells. Norður- og Suðurjökull skríða niður að Hvítárvatni. Líklega hylur jökullinn tvö eldstöðvakerfi, norðaustantil og sunnan-suðvestntil.  Umhverfis jökulinn eru víða merki um ísaldareldvirkni, s.s. öll stapafjöllin umhverfis hann, öll með jökulhettu (Eiríksjökull, Hrútfell, Skriðufell, Geitlandsjökull og Þórisjökull), og nútíma- og jafnvel sögulegrar eldvirkni gíga við norðurjaðarinn, þaðan sem Hallmundarhraun rann.  Norðaustan Kráks á Sandi eru gígar gaus u.þ.b. 2 km löng sprunga og myndaði 35 ferkílómetra hraun auk 12 ferkílómetra hrauns sunnan hans (Strýtuhraun/Helluhraun).  Skammt frá Hafrafelli við Kaldadalsleið er gígur, sem myndaði Geitlandshraun (35 ferkílómetra).
Umhverfis Langjökul eru smájöklarnir Eiríksjökull, Þórisjökull (u.þ.b. 30 km²) Hrútafell (u.þ.b. 10 km²) og Ok. Það er áberandi, að lítið vatn streymir á yfirborði frá þessum stóra jökli. Mestur hluti leysingarvatns síast í gegnum gropin móbergslöginn undir honum og kemur fram m.a. í Þingvallavatni, Brúará, á Arnarvatnsheiði og jarðhitasvæðum í Borgarfirði, Reykjavík og nágrenni og á Geysissvæðinu. Boðið er uppá snjósleða- og snjóbílaferðir á Langjökul.

 

Séð yfir Ok frá Langjökli

 

Prestahnjúkur (1225m) er áberandi líparítfjall suðvestan hábungu Geitlandsjökuls.  Hann er ljós efst en neðar stálgrár og grænblár.  Líklegast hefur hann myndazt við gos undir jökli.  Nafnið er ungt og lengi vel haldið, að það væri dregið af fyrstu göngu á fjallið, en þar voru á ferð prestarnir Helgi Grímsson á Húsafelli og Björn Stefánsson á Snæfoksstöðum á ferð.  Þeir fóru fyrstir í Þórisdal og ólíklegt talið, að þeir hafi líka gengið á hnjúkinn.  Jónas Hallgrímsson kallaði fjalli Bláfell.  Mikið er af perlusteini í hnjúknum og tilraunir voru gerðar með hann til útflutnings.  Jeppaslóð er rudd frá Kaldadalsvegi að hnjúknum.

Frá Húsafelli að Jaka skála Fjallamanna við Langjökul eru um 18 km og akfært öllum bífreiðum að sumarlagi. Þaðan er fallegt útsýni yfir sveitina og fjöllin í kring. Á góðum degi er útsýnið af jöklinum óviðjafnanlegt en rigning og þoka bjóða ekki upp á síðri lífsreynslu því þá er dulúðin og tilfinningin fyrir víðáttum jökulsins einna mögnuðust.

 

Deildartunguhver í Reykholtsdal er vatnsmesti hver Evrópu og gefur hann um 180 l/s af 100° vatni.   Hluti vatnsmagnsins í hvernum var virkjað til hitaveitu á Akranesi (64 km), Borgarnesi (34 km) og á nokkrum bæjum á leiðinni.    

Við hverinn er að finna afbrigði af burknanum skollakampi (blechnum spicant) sem hvergi vex annars staðar hér á landi.  Hverinn er friðaður.  Mikil gróðuhúsarækt er í Deildartungu sem og á fleiri stöðum í Reykholtsdal.

 

Reykholt í Reykholtsdal Borgarfirði er eitt af fornum höfuðbólum Íslands og menningarsetur í fortíð og nútíð.  Saga Íslands tengist Reykholti og einn þekktast rithöfundur Íslendinga er sagnaritarinn og skáldið SNORRI STURLUSON (1179-1241).  Hann var einnig höfðingi mikill, stjórmálamaður og talinn einn auðugasti maður Íslands á Sturlungaöld.   

Snorri skrifaði Heimskringlu, sögu Noregskonunga, Snorra-Eddu, ómetanlegar heimildir um norræna goðafræði og kveðskap.  Meðal elstu varðveittra mannvirkja á Íslandi er Snorralaug og stokkar sem veita vatni í hana úr hvernum Skriflu.  Í Snorrastofu er unnið að rannsóknum og kynningu í miðaldafræðum og sögu Borgarfjarðar.  Heimskringla annast móttöku gesta og veitir þjónustu og fræðslu, m.a. um sögu Reykholts.