Húsafell

Bistró: 435-1550
Hótel: 435-1551

Sundl./swimming pool:

435-1552

Tjaldsvæði/camping:

435-1556


husafell@husafell.is

restaurant@husafell.is

booking@hotelhusafell.is

camping@husafell.is

 Söguganga um Húsafell

Við eftirfarandi sögustaði eru fræðsluskilti með frekari upplýsingum

 

Fyrsta heimild um Húsafell er Eyrbyggja frá árinu 1170 en þar var þá þegar kirkjustaður. Einna frægastur ábúenda á Húsafelli er eflaust séra Snorri Björnsson, en hann bjó þar á árunum 1757 til 1803. Um hann hafa verið ritaðar bækur og ótal frásagnir eru til af honum og sumar hverjar með miklum þjóðsagnablæ.

Sjá má staðsetningu fræðsluskilta á kortinu

 

A)  Draugarétt

Fyrir norðan kirkjuna á Húsafelli er Draugaréttin þar sem Snorri á að hafa kveðið niður 18 drauga sem honum voru sendir norðan af Hornströndum þar sem hann var prestur áður en hann kom að Húsafelli. Páll Guðmundsson listamaður táknar þessa sögn með höggmynd af Snorra og 18 draugahausum á leið ofan í jörðu. Í annarri sögn kom hann draugum fyrir í Draugagili, hrikalegri gjá norðan í Strút.

 

B)  Túngarðar

Þorsteinn Magnússon bjó á Húsafelli 1875 – 1906. Hann var mikill jarðabótamaður og hlóð meðal annars mikla túngarða úr grjóti. Hann reisti vatnsknúna myllu vestan við kvíarnar og sést rústin af myllukofanum enn. Menn komu með korn sitt frá öðrum bæjum til að mala það í myllunni. Meðan kornið malaðist unnu þeir að hleðslu garðanna með Þorsteini. Sér fyrir görðum þessum frá Draugarétt upp upp undir tófugildru. Efsti hluti garðsins var ekki túngarður heldur til að halda skepnum á haga.

 

C)  Kirkja

Fyrstu heimildir um Húsafell eru í Eyrbyggju þar sem þess er getið að Brandur Þórarinsson „setti stað” á Húsafelli og mun þetta hafa verið um 1170. Heimildir eru um 23 presta, margir þeirra nafntogaðir menn, en frægastur þeirra varð séra Snorri Björnsson f. 1711, d. 1803. Um hann hefur verið rituð bók og ótal frásagnir eru til af honum og sumar hverjar með þjóðsagnablæ. Kirkjan á Húsafelli var í pápísku helguð almáttugum guði og jómfrú Maríu og hinni heilögu Sesselíu. Þegar séra Snorri tekur við Húsafelli 1757 var bæði húsakostur og kirkjumunir í lélegu ástandi eftir stanslaus harðindi í 6 ár. Séra Snorri byggir nýja kirkju jafnstóra frá grunni árið 1768 og smíðar nýjan prédikunarstól. Þetta var síðasta sóknarkirkjan á Húsafelli. Hún var rifin 1813. Enn var þó jarðað í kirkjugarðinum til 1852. Nokkru fyrir 1930 þótti vinnumanni á Húsafelli Jakobi Guðmundssyni sem séra Snorri birtist sér í draumi og bæði sig að afstýra því að klaufdýr troði leiði hans. Jakob reisti þá vandaða girðingu með sáluhliði á hinum forna kirkjugarðsvegg. Síðar gerðist Jakob aðalhvatamaður að byggingu núverandi kirkju. Sá draumur varð að veruleika og ný kirkja var byggð á árunum 1950 – 1973. Hugmynd að útliti hennar er eftir Ásgrím Jónsson listmálara en Halldór Jónsson arkitekt gerði teikningar. Steinmyndir í kirkjunni eru verk Páls Guðmundssonar listamanns.

 

D)  Gamli bærinn

Ástríður Þorsteinsdóttir ekkja Þorsteins Magnússonar lét byggja gamla bæinn árið 1908. Kaldadalsvegur var ruddur og gerður bílfær 1929. Árið eftir var 1000 ára afmælis Alþingis minnst á Þingvöllum með hátíðlegri athöfn að viðstöddu miklu fjölmenni. Þá var þetta eina bílfæra leiðin norður í land og ferðamannastraumurinn náði hámarki um Alþingishátíðina. Þorsteinn sonur Ástríðar og Þorsteins Magnússonar hafði fast starfsfólk til að taka á móti gestum sem voru æði margir. Var gamli bærinn alltaf fullur af heimafólki og ferðamönnum og oft var sofið í hlöðum en færri tjölduðu. Auk ferðafólks voru jafnan svonefndir setugestir, en meðal þeirra voru málarar og skáld. Ásgrímur Jónsson listmálari einn af mestu listamönnum þjóðarinnar dvaldist í gamla bænum sumar eftir sumar, enda fann hann á Húsafelli í hnotskurn náttúru Íslands og málaði hana af mikilli ástríðu. Árið 1996 gerði Kristleifur bóndi á Húsafelli upp Gamla bæinn sem var mjög illa farinn, en ekki hafði verið búið í honum síðan 1963. Við endurnýjun hússins var leitast við að halda upprunalegu útliti þess. Í þessu sögufræga húsi er í dag boðin gisting í 5 tveggja manna herbergjum með morgunmat og eldunaraðstöðu.

 

E)   Listaverkin

Páll Guðmundsson listamaður er alinn upp á Húsafelli og er í sjötta lið frá séra Snorra. Snemma í uppvexti Páls kom í ljós áhugi hans á myndlist enda hæg heimatökin og sótti hann meðal annars áhugann til þeirra listamanna sem dvöldust á Húsafelli og fylgdist hann með störfum þeirra. Hann aflaði sér djúpstæðrar þekkingar á listum í myndlistarskólum hér á landi og erlendis og hefur þess utan verið gestur á helstu listasöfnum Evrópu og Ameríku. Hann vinnur listaverk sín í grjót, pappír, striga og brons. Nýjasta verk Páls er hljómfögur steinharpa sem hann hefur raðað sama úr þunnum hellum frá Húsafelli.

 

F)   Kvíarnar

Séra Snorri lagði niður sel fyrirennara sinna og byggði kvíar úr ótrúlega stórum steinum, þar sem ær hans voru mjólkaðar. Við kvíarnar hafði hann hellu sem nefndist Kvíahellan en á henni skyldu menn reyna krafta sína. Hún er 186 kíló og afslepp átaks. Þrjár aflraunir skyldu menn þreyta. Hin fyrsta er að setja hellun uppá suðurkamp nyrðri kvíadyra, önnur þrautin var að lyfta hellunni uppá stóran stein í  í norðurvegg kvíanna. Á þann stein er letrað nafnið Snorri. Þriðja þrautin er að taka helluna í fangið og bera hana umhverfis kvíarnar.

 

G)  Myllutóftin

Tóftin af myllu Þorsteins Magnússonar  sést enn fyrir vestan kvíarnar. Húsfellingar sóttu hraungrýti í námu uppi í Geitlandi og hjuggu úr því kvarnarsteina sem voru seldir víðs vegar auk þess að vera notaðir í mylluna heima. Þessi náma hefur verið nýtt þangað til fyrst á tuttugustu öld. Önnur myllutóft er í Myllulæk þar sem nú er golfvöllur og hana smíðaði Þorsteinn Jakobsson Snorrasonar prests bóndi á Húsafelli.

 

H) Geitakofatóftin

Geitakofarnir stóðu vestan og ofan við Kvíarnar rétt við Mylluna. Á tímabili hafði séra Snorri bæði geitur og ær. Geiturnar nöguðu börk birkitrjánna og hefur það átt drjúgan þátt í að eyða hinum stórvaxna skógi sem var í Bæjarfellinu.

 

I)     Tófugildran

Hér má sjá haganlega hlaðna tófugildru frá dögum Þorsteins Jakobssonar, Snorrasonar en hann var hagleiksmaður og mikill veiðimaður. Mun hún vera gerð að grænlenskri fyrirmynd eftir tilsögn úr Atla búfræðiriti Björns í Sauðlauksdal. Gildruna væri hægt að nota til tófuveiða í dag.

 

J)   Bæjargil

Frá Tófugildrunni liggur leiðin niður í Bæjargil, en það aðskilur Bæjarfell og Útfjall. Inni í gilinu er hár foss og austan við fossinn eru Hádegisklettar. Bæði er hægt að finna líparít innskot, basaltganga og bergrósir í gilinu. Víða í gilinu er einnig rautt og blátt grjót sem Húsfellingar notuðu til að höggva úr legsteina, ker og fleiri smíðisgripi. Páll Guðmundsson hefur sótt efnivið í mörg listaverka sinna í gilið enda má sjá þar ýmsar kynjaverur meitlaðar í grjót.